Erlent

Hamas segist geta viðurkennt Ísraelsríki

Til þessa hefur ríkt svartnætti í samskiptum Hamas og Ísrael.
Til þessa hefur ríkt svartnætti í samskiptum Hamas og Ísrael. MYND/AP

Æðsti leiðtogi Hamas samtakanna sagði í viðtali í dag að Hamas viðurkenndi að tilvera Ísraelsríkis sé staðreynd. Khaled Meshaal, útlægur leiðtogi samtakanna virðist þarna taka mildari stefnu gagnvart Ísrael en áður.

Í viðtalinu segir Meshaal að Ísrael sé raunverulegt og að það verði áfram til ríki sem heitir Ísrael. Það sé staðreynd. Leiðtoginn sagði að vandamálið sé ekki tilvera Ísraelsríkis, heldur að ekki skuli hafa tekist að stofna ríki fyrir palestínumenn. Hamas gæti ekki viðurkennt Ísrael fyrr en slíkt ríki Palestínumanna hefði verið stofnað.

Þetta verða að teljast nokkrar fréttir þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Hamas samtökin ljá máls á því að viðurkenna Ísrael undir nokkrum kringumstæðum. Hamas hefur meirihluta á þingi á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna, og þar er Ismail Haniyeh forsætisráðherra. Khaled Meshaal, er hinsvegar ótvíræður leiðtogi samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×