Sport

Federer tapaði í Ástralíu

Andy Roddick og Roger Federer sjást hér með verðlaunagripi sína eftir viðureignina í morgun.
Andy Roddick og Roger Federer sjást hér með verðlaunagripi sína eftir viðureignina í morgun.

Bandaríkjamaðurinn Andy Roddick gerði sér lítið fyrir og lagði Svisslendinginn Roger Federer af velli í úrslitaviðureign Kooyong-mótsins í Melbourne í Ástralíu sem fram fór í morgun. Roddick vann sannfærandi sigur; 6-2, 3-6 og 6-3, gegn langstigahæsta tennisspilara heims.

Roddick sigraði Federer síðast fyrir þremur árum en þetta var fyrsta tap Federer á tennisvellinum síðan í ágúst sl. Federer var nánast ósigrandi á síðasta ári og sigraði á meirihluta þeirra móta sem hann tók þátt í.

Mótið í Melbourne er hins vegar ekki hátt skrifað og á pappírunum telst það vera til æfingamóts, jafnvel þó að margir af sterkustu spilurum heims taki jafnan þátt í því. Mótið er eins konar upphitunarmót fyrir opna ástralska meistaramótið sem hefst á mánudag en leiða má líkur að því að sigurinn á Federer muni veita Roddick aukið sjálfstraust fyrir það mót.

"Sigur á Federer verður að nást á sterkara móti til að hægt sé að túlka það sem stórfréttir. Hins vegar er alltaf gaman að vinna mót, jafnvel þó að þau séu ekki á háu plani," viðurkenndi Roddick eftir mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×