Erlent

Forsetaflugvél rekin úr lofthelgi Mexíkós

Mexíkó rak flugvél forseta Tævans út úr lofthelgi sinni, fyrr í þessari viku, að beiðni stjórnvalda í Kína. Kínverjar líta á Tævan sem hluta af Kína og hafa hótað að endurheimta eyjuna með vopnavaldi, ef Tævanar selja sig ekki sjálfviljugir undir stjórn þeirra.

Chen Shui-Bian, forseti Tævans var á leið heim frá Níkvaragva þar sem hann hafði verið viðstaddur embættistöku Danóels Ortega, hins nýja forseta landsins. Vélin var á leið til Los Angeles þar sem átti að hafa viðdvöl áður en haldið yrði áfram til Tævans.

Til þess þurfti vélin að fljúga yfir Mexíkó, en þegar hún var komin inn í lofthelgi landsins var henni skipað að hafa sig á brott. Þá var tekinn stór krókur framhjá Mexíkó, og lent í Los Angeles. Kínverjar berjast mjög hart gegn því að Tævan fái nokkra alþjóðlega viðurkenningu og er þess skemmst að minnast að Íslendingar fengu bágt fyrir hjá þeim, þegar hingað kom fólk frá eynni umdeildu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×