Erlent

Ofsaveður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð

Ofsaveður gengur nú yfir Norður-Jótland í Danmörku. Vindhraðinn mun á við fellibyl, ferjusiglingum hefur verið aflýst og fólk er hvatt til að halda sig heima. Einnig er varað við vondu veðri í Noregi og Svíþjóð.

Engar fréttir hafa borist af alvarlegu tjóni vegna veðurhamsins í Danmörku. Þó hafa tré brotnað eða rifnað upp með rótum. Að sögn danska útvarpsins var vindhraðinn á við fellibyl í verstu hviðunum.

Veðrið hélt áfram austur yfir landið nú í morgun og var áætlað að það næði Borgundarhólmi um hádegi. Ferjusiglingum var aflýst eða frestað í morgun og folk hvatt til að halda sig heima á sumum svæðum. Fram kemur á vefsíðu danska útvarpsins að Stórabeltisbrú og Eyrarsundsbrú hafi verið lokað til klukkan tvö að staðartíma.

Vonskuveður er einnig í Noregi og Svíþjóð og veðurstofur þar hafa sent frá sér viðvörun. Samkvæmt vefsíðu norska útvarpsins er afar vindasamt í Vesturfold og íbúar þar hvattir til að halda sig innandyra. Sænska útvarpið segir tré hafa brotnað og rifið niður raflínur á Gautalandi þannig að fjölmörg heimili séu án rafmagns.

Engar fréttir hafa borist af slysum á folk í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×