Erlent

Sarkozy í forsetaframboð í Frakklandi

Nicolas Sarkozy, á flokksþinginu í París, í dag.
Nicolas Sarkozy, á flokksþinginu í París, í dag. MYND/AP

Hinn hægri sinnaði ríkisstjórnarflokkur Frakklands, UMP hefur valið Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra frambjóðanda sinn í forsetakosningunum sem fara fram í sumar. Hættulegasti andstæðingur Sarkozys í þeim kosningum verður frambjóðandi sósíalista Segolene Royal. Þau tvö eru ótrúlega jöfn í skoðanakönnunum, en gamli hægri tarfurinn Jean-Marie Le Pen, gæti einnig ógnað hægri væng innanríkisráðherrans.

Meðal kosningaloforða Sarkozys er að draga úr vinnuvernd, þannig að vinnuveitendur hafi meira svigrúm til þess að ráða og reka fólk. Hann hefur einnig heitið því að lögreglan muni ganga ákveðið fram í órólegum hverfum í París og annarsstaðar, og að ólöglegir innflytjendur verði sendir til síns heima, hvort sem er í Afríku eða annarsstaðar.

Hvorki Jacques Chirak, forseti, né Dominic de Villepin forsætisráðherra, hafa lýst stuðningi við Sarkozy. Chirac hefur ekki einusinni sagt til um hvort hann hyggist sjálfur bjóða sig fram, og Villepin segist ekki lýsa yfir stuðningi við neinn fyrr en það liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×