Erlent

Jimmy Carter var skelfilegur forseti

Jimmy Carter og Gerald Ford takast á í sjónvarpskappræðum fyrir forsetakosningarnar þar sem Carter rúllaði Ford upp.
Jimmy Carter og Gerald Ford takast á í sjónvarpskappræðum fyrir forsetakosningarnar þar sem Carter rúllaði Ford upp. MYND/AP

Gerald Ford, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var borinn til grafar við hátíðlega athöfn, á dögunum. Margt manna var við útförina og þeir báru mikið lofsorð á þennan eina forseta landsins sem aldrei var kjörinn í embætti. Gerald Ford talaði hinsvegar ekki sérstaklega hlýlega um starfsbræður sína, fyrr og síðar.

Á þeim tuttugu og fimm árum sem liðu frá því hann stóð upp úr forsetastólnum og þartil hans lést, veitti hann blaðinu Grand Rapids Press, í Michigan mörg opinská viðtöl. Skilyrðið var að þau yrðu ekki birt fyrr en að honum látnum. Það er kannski skiljanlegt, því það var ekki allt fallegt sem hann sagði.

Um Jimmy Carter sagði Ford að hann hefði verið skelfilegur forseti. Hann hefði verið stórslys fyrir landið í efnahagsmálum og innanríkismálum. Ford sagðist hafa sagt það oftar en einusinni að Carter hefði verið versti forseti Bandaríkjanna í sinni lífstíð.

Um John Kennedy sagði Ford að hann hefði verið ofmetinn og um Bill Clinton að hann hefði verið svona miðlungs forseti. Ford var líka argur út í Ronald Reagan og taldi að honum hefði verið eignaður alltof mikill heiður af hruni Sovétríkjanna. Hann taldi að eigin hlutur í samningunum sem leiddu til Helsinki sáttmálans hefði verið mikilvægari en það sem Reagan gerði.

Ford vildi ekki tjá sig um George W. Bush, þar sem hann þekkti hann of litið. Honum lá þó ekki illt orð til allra. Hann sagði að Richard Nixon hefði verið meistari í utanríkismálum og George Bush eldri hefði haldið vel á málum í fyrri innrásinni í Írak. Ford taldi svo Dwight D. Einsenhower besta forseta landsins í sinni lífstíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×