Hófsöm Arabaríki segjast munu hjálpa Bandaríkjamönnum að koma á friði í Írak, ef þeir taki virkari þátt í því að endurvekja friðarferlið milli Ísraela og Palestínumanna. Þeir kalla það "Írak fyrir land," og eiga þar við sjálfstætt ríki fyrir Palestínumenn.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom til Miðausturlanda í dag og á þriðjudag mun hún eiga fund með starfsbræðrum sínum frá átta arabaríkjum, í Kúveit. Þeir segjast munu tala einni röddu um nauðsyn þess að leiða deilu Ísraela og Palestínumanna til lykta, og þeir kunna að vera harðorðir.
Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sagði að það væri löngu tímabært að ýta við friðarferlinu, það muni af sjálfu sér opna fleiri leiðir til friðar og sátta. Þessi afstaða hefur líklega komið Bandaríkjamönnum á óvart. Þegar Rice hitti Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, í gær ræddi hún um þann möguleika sem Ísraelar hafa viðrað að Palestínumenn stofnuðu bráðabirgðaríki innan þeirra landamæra sem þeir nú ráða yfir.
Það er óneitanlega frekar ódýr lausn, enda tók Abbas því fálega. Við það og við að heyra um afstöðu annarra arabaríkja virðist Rice hafa snúið við blaðinu og ítrekaði stuðning Bandaríkjamanna við friðarferlið, sem nýtur jú alþjóðlegs stuðnings. Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr fundi hennar í Kúveit á þriðjudag.