Innlent

Ríflega níu milljóna króna bætur vegna líkamsárásar

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann til að greiða öðrum manni ríflega 9,3 milljónir króna í skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í líkamárás sem átti sér stað í september 1998.

Til átaka kom milli mannana í miðbæ Reykjavíkur og sló sá sem dæmdur var hinn í andlitið með þeim afleiðingum að hann skall með höfuðið í jörðina þannig að hann hlaut heilaskaða en varanleg örorka hans var metin 75 prósent og varanlegur miski 60 prósent.

Árásarmaðurinn var sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás í opinberu máli tengdu þesu og taldi Hæstiréttur þann dóm hafa fullt sönnunargildi um að árásarmaðurinn hefði valdið líkamstjóninu.

Ekki var talið útilokað að tjónið mætti að einhverju leyti rekja til þess að einnig var sparkað í höfuð mannsins eftir að hann féll í götuna en árásarmaðurinn var talinn bera ábyrgð á öllu tjóni.

Fórnarlambið var þó látið bera þriðjung tjóns síns þar sem talið var að það hefði átt upptökin að slagsmálunum. Annar maður sem fórnarlambið fór fram á skaðabætur frá var hins var sýknaður af öllum kröfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×