Sport

Hatton einbeitir sér að Urango

NordicPhotos/GettyImages
Breski hnefaleikarinn Ricky Hatton segist ætla að einbeita sér algjörlega að því að sigra Kólumbíumanninn Juan Urango annað kvöld, en heyrst hefur að menn í herbúðum Hatton séu þegar farnir að huga að næsta bardaga - sem væntanlega yrði gegn Jose Luis Castillo. Castillo verður einmitt í eldlínunni á Sýn annað kvöld eins og Ricky Hatton.

"Það síðasta sem ég vil að fólk haldi er að þessi bardagi við Urango sér einhversskonar upphitun fyrir mig áður en ég mæti Castillo. Ég ber fulla virðingu fyrir Urango og ef ég gerði það ekki - gæti ég lent í miklum vandræðum. Ef ég mæti honum með einhverju öðru en 100% virðingu, veit ég að ég myndi lenda í vandræðum.

Urango á að baki 17 bardaga sem atvinnumaður og hefur aldrei tapað. Hatton spáir því að bardaginn annað kvöld verði mikið augnkonfekt fyrir áhorfendur. "Urango er skrautlegur bardagamaður rétt eins og ég sjálfur, hann berst eins og ljón og bakkar aldrei - og því held ég að áhorfendur muni sjá frábæra viðureign," sagði Hatton.

Eins og komið hefur fram hér á Vísi hefst boxveislan á Sýn klukkan 20:50 annað kvöld með bardaga ófreskjunnar Nikolay Valuev við Jameel McCline sem fram fer í Sviss - en síðar verður skipt yfir til Las Vegas þar sem Hatton mætir Urango. Þar verður líka bardagi Jose Luis Castillo við Herman Ngoudjo.
Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×