Varnarmálaráðherra Ísraels hefur lagt fram áætlun í þrem liðum um að koma friðarferlinu við Palestínumenn aftur í gang. Í því felst meðal annars að Mahmoud Abbas, forseti, fái lengri tíma til þess að afvopna öfgahópa, og Ísraelar loki ólöglegum landnemabyggðum á Vesturbakkanum.
Amir Peretz, varnarmálaráðherra, á undir högg að sækja vegna ófara ísraelska hersins í Líbanon, á dögunum, þegar honum tókst ekki að uppræta skæruliðasveitir Hisbolla. Í þessari nýju áætlun hans er gert ráð fyrir að samningaviðræður við Palestínumenn taki að minnsta kosti þrjátíu mánuði.
Þá væntir hann þess að hægt verði að stofna sjálfstætt ríki Palestínumanna við hlið Ísraelsríkis, en með bráðabirgða landamærum, sem fyllt verði útí síðar. Mahmoud Abbas, forseti, hefur þegar lýst því yfir að hann sé ekki hrifinn af hugmyndum um bráðabirgða landamæri.
Erlent