Erlent

Hvetja til laga um hámarkslosun gróðurhúsalofttegunda

Forstjórar níu af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, þeirra á meðal Alcoa, skora á Bush Bandaríkjaforseta að setja lög um hámarkslosun gróðurhúsalofttegunda og verndun andrúmsloftsins. Forsetinn flytur árlega stefnuræðu sína í nótt og búist er við að umhverfismál beri þar á góma.

Bush Bandaríkjaforseti hefur hingað til hafnað því að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda með lögum. Bandaríkjamenn hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir stefnu sína í umhverfismálum á alþjóðavísu en þeir hafa ekki staðfest Kyoto-sátmálann um losun gróðurhúsalofttegunda.

Leiðtogar níu fyrirtækja úr hópi þeirra stærstu í Bandaríkjunum hafa nú sent forsetan bréf þar sem þau óska eftir slíkum takmörkunum þannig að draga megi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir árið 2050. Meðal þeirra forstjóra sem þar hafa stigið fram eru þeir sem leiða fyrirtæki á borð við Alcoa, BP, Caterpillar og General Electric.

Í bréfi þeirra segir meðal annars að Bandaríkin geti og verði að bregðast skjótt við til að samræma og markaðsvæða varnir fyrir andrúmsloftið. Forstjórarnir hafa stofnað bandalag og verður fulltrúum þeirra þar falið að þrýsta á um að takmarkanir verði settar. Fréttaskýrendur segja það vilja forsvarsmanna fyrirtækjanna að lög og reglur í þessum efnum verði skýr og gagnsæ.

Tony Snow, talsmaður Bandaríkjaforseta, segir forsetann ætla að boða mikilvæga stefnu hvað varði orkunýtni og losun gróðurhúsalofttegunda. Hann segir þó rétt að geta þess að það samrýmist ekki stefnu forsetans að lögbinda takmarkanir á losun. Snow sagði það skoðun forsetans að fyrirtæki sjálf verði að koma fram með nýjungar til að taka á loftslagsbreytingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×