Erlent

Ítalskur ráðherra krefst hermanna heim frá Afganistan

Ráðherra græningja í samsteypustjórn Romanos Prodis, á Ítalíu, hefur hótað uppreisn í ríkisstjórninni vegna ítalskra hermanna í Afganistan. Hann krefst þess að gerð verði tímaáætlun um heimkvaðningu þeirra. Ítalir hafa þegar kallað hermenn sína heim frá Írak, en Prodi var á móti því stríði. Hann segir aftur á móti að hermennirnir í Afganistan tilheyri friðargæslusveitum, og það sé allt annar handleggur.

Það finnst græningjanum Alfonso Pecoraro Scanio ekki, en hann er umhverfisráðherra Ítalíu. Hann segir að græningjar geti greitt atkvæði gegn frekari fjárframlögum til hersveitanna í Afganistan, en um þau þarf að greiða atkvæði á sex mánaða fresti.

Scanio segir að þeir krefjist þess ekki að hermennirnir verði kvaddir heim tafarlaust, en þeir vilji sjá greinileg merki um áherslubreytingar hjá ríkisstjórninni. Þeir einu sem séu að vinna stríðið í Afganistan séu vopnaframleiðendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×