Erlent

Segolene Royal biðst vægðar

Segolene Royal.
Segolene Royal. MYND/AP

Segolene Royal, forsetaframbjóðandi sósíalista í Frakklandi, bað fjölmiðla í dag um að hætta að hnýsast í einkalíf sitt. Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað mikið um meintan ágreining hennar og sambýlismanns hennar Francois Hollande, sem er formaður Sósíalistaflokksins og gerði sér sjálfur vonir um að verða í framboði til forseta. Litlar líkur eru á að fjölmiðlar verði við beiðni hennar.

Hjúin lentu upp á kant fyrr í þessum mánuði þegar Hollande lagði til að skattar yrðu hækkaðir á þeim sem hefðu meira en 4000 evrur (360.000 íkr) í laun á mánuði. Royal tók ekki undir það og talsmaður hennar sagði að Hollande væri helsti veikleiki framboðs hennar. Það kostaði hann raunar eins mánaðar brottvikningu úr starfi.

Fjölmiðlarnir liggja því yfir hverju orði þeirra. Á dögunum var haft eftir Hollande að konungar tækju alltaf við völdum á nýjan leik. Drottningar entust ekki nema vissan tíma. Royal hló að þessu og sagði að Frakkland væri lýðveldi en ekki konungdæmi.

Hollande hefur þegar sagt að ef Royal verður kjörinn forseti muni hann ekki flytja með henni inn í forsetahöllina. Hann muni halda áfram að búa þar sem hann býr í dag. Þetta samhenta par á fjögur börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×