Erlent

Snjór tefur flug- og bílaumferð í Evrópu

Mikill snjór hefur fallið víða í Evrópu í dag og í gær og haft víðtæk áhrif á umferð, bæði í lofti og á láði. Nokkrum flugvöllum var lokað, en 100 flug voru felld niður á alþjóðaflugvellinum í Prag þar sem snjókomunni linnti ekki. Flugumferð í Þýskalandi, Sviss og á Ítalíu truflaðist einnig vegna snjókomunnar. Í Stuttgart voru um eitt þúsund farþegar strandaglópar í nótt þegar 70 flug voru felld niður. Sömu sögu er að segja frá Munchen þar sem 35 flugum var seinkað og 25 flug felld niður og urðu eitt þúsund mannsstrandaglópar. Þrjú dauðsföll eru rakin til snjókomunnar á vegum í Suður Þýskalandi, og langar bílaraðir hafa myndast á vegum, en flestir bílar eru á sumardekkjum. Á Englandi féll tveggja sentimetra snjór í nótt og voru ökumenn varaðir við hættu á vegum, en þar er búist við versnandi veðri næsta sólarhringinn.

Á flugvellinum í Basel voru 30 flug felld niður í dag, en mikill snjór féll í svissneska skíðabænum Davos, þar sem ráðstefna Alþjóða efnahagsstofnunarinnar fer fram.

Fram að þessu hefur veturinn á meginlandi Evrópu verið óvenju mildur og er snjórinn afar velkominn á skíðasvæðum í Ölpunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×