Viðskipti erlent

Methagnaður hjá Nokia

Finnski farsímaframleiðandinn Nokia skilaði tæplega 1,27 milljarða evra hagnaði á síðasta fjórðungi liðins árs samanborið við 1,07 milljarða evra hagnað á sama tíma ári fyrr. Þetta jafngildir 113,5 milljörðum íslenskra króna og hefur hagnaðurinn aldrei verið meiri. Hagnaður Nokia í fyrra nam 4,3 milljörðum evra, jafnvirði 384,3 milljörðum íslenskra króna. Vöxturinn var mestur á Indlandi og í Kína.

Tekjur Nokia námu 11,7 milljörðum evra, 1.045 milljörðum króna, á fjórðungnum sem er tæpum 600 milljónum evra meira en á sama tíma árið áður.

Helsta ástæðan fyrir afkomunni á fjórðungnum er aukin eftirspurn eftir farsímum á nýmörkuðum á borð við Indland og í Kína en farsímaframleiðendur hafa í auknum mæli verið að markaðssetja sig þar.

Afkoman er talsvert yfir væntingum greinenda en fréttaveita Bloomberg hafði eftir tíu þeirra að gert væri ráð fyrir 1,11 milljarði evra, 98,31 milljarði íslenskra króna, í hagnað á fjórðungnum.

Olli-Pekka Kallasvuo, forstjóri Nokia, býst við talsverðri aukningu í farsímasölu á næstu þremur árum og gerir ráð fyrir að farsímanotendur verði fjórir milljarðar talsins árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×