Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir tvær hættulegar líkamsárásir

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag konu í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir og tvo karlmenn í fjögurra og fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild að annarri þeirra.

Alls voru sex manns, fimm karlar og ein kona, ákærð fyrir árásina sem átti sér stað á skemmtistaðnum Nellys í Reykjavík í apríl árið 2004. Þar áttu sexmenningarnir að hafa í sameiningu ráðist á karlmann með höggum og spörkum og tvö þeirra slegið hann í höfuðið með glerflöskum þannig að hann hlaut skurð á augum og hnakka og nefbrotnaði.

Konan var auk þess ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn annarri konu í júní árið 2005 en þá á hún að hafa slegið konuna í andlitið með glasi og dregið niður á gólf með þeim afleiðingum að hún hlaut ýmsa áverka.

Þrír mannanna úr fyrrnefnda málinu voru sýknaðir vegna skorts á sönnunum en þrennt var sakfellt, þar á meðal konan. Hún var auk þess sakfelld fyrir árásina á kynsystur sína í hitteðfyrra.

Voru þremenningarnir dæmdir til að greiða fórnarlambi sínu ríflega 400 þúsund krónur í miskabætur og konan þar að auki 200 þúsund til kynsystur sinnar sem hún réðst á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×