Erlent

Slær út í fyrir Jacques Chirac

Jacques Chirac, forseti Frakklands.
Jacques Chirac, forseti Frakklands. MYND/AP

Samskipti Jacques Chiracs, forseta Frakklands, við þrjá alþjóðlega fjölmiðla hafa vakið spurningar um hvort farið sé að slá út í fyrir forsetanum. Síðastliðinn mánudag veitti hann viðtal blaðamönnum frá New York Times, International Herald Tribune og Le Nouvel Observateur. Daginn eftir kvaddi hann þessa sömu blaðamenn á sinn fund og dró til baka flest það sem hann sagði.

Í mánudagsviðtalinu sagði forsetinn meðal annars að það væri ekki svo hættulegt að Íran ætti eina eða tvær litlar kjarnorkusprengjur. Ef þeim yrði skotið, til dæmis á Ísrael, yrði Teheran samstundis þurrkuð út af landakortinu. Hann sagði einnig að mesta hættan við írönsk kjarnorkuvopn væri sú að þá myndu önnur lönd fylgja í kjölfarið, eins og Sádi-Arabía og Egyptaland. Allir blaðamennirnir tóku viðtalið upp á segulband.

Á þriðjudagsfundinum sagði Chirac að hann hefði haldið að þeir væru að tala óformlega um ýmsa þætti og dró til baka flest af því sem hann hafði sagt. Um það að Ísraelar yrðu fyrir árás og myndu þurrka út Teheran sagði forsetinn: „Ég held ekki að ég hafi talað um Ísrael í gær. Kannski gerði ég það en ég held ekki. Ég man ekkert eftir því.“

Jacques Chirac er 74 ára gamall og árið 2005 var hann lagður inn á sjúkrahús vegna truflunar í taugakerfi sem ekki var frekar útskýrð. Embættismenn segja að síðan hafi hann ekki verið eins ákveðinn eða nákvæmur í tjáningu.

Blaðamennirnir sem ræddu við hann segja að mikill munur hafi verið á framkomu hans á fundunum tveimur. Á mánudeginum hafi hann virst annars hugar og ekki munað nöfn eða dagsetningar. Hann hafi verið skjálfhentur og stundum hafi aðstoðarmenn stungið að honum minnisblöðum sem á var skrifað stóru letri. Á fundinum á þriðjudag hafi hann verið sýnu hressari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×