Sport

Mayweather: Hatton er fitubolla

Floyd Mayweather er sannarlega jafn öflugur í kjaftinum og í hnefunum
Floyd Mayweather er sannarlega jafn öflugur í kjaftinum og í hnefunum NordicPhotos/GettyImages

Bandaríski hnefaleikarinn Floyd Mayweather hefur ekki í hyggju að mæta Bretanum Ricky Hatton í hringnum áður en hann leggur hanskana á hilluna og segir Hatton ekkert annað en pappakassa með bjórvömb sem sé nógu góður til að pússa skóna sína og slá hjá sér grasið.

Mayweather er almennt álitinn besti hnefaleikari heimsins pund fyrir pund og er taplaus í 37 bardögum. Hann ætlar að mæta Oscar de la Hoya í maí í einum stærsta bardaga síðari ára og hefur látið í það skína að hann hætti eftir þann bardaga.

"Ricky Hatton er ekkert nema fitubolla og ég myndi bara kýla hann í bjórvömbina. Hann er ekki nógu góður til að vera æfingafélagi minn," sagði Mayweather í samtali við breska sjónvarpið. "Hatton sagðist vera að koma til Bandaríkjanna til að setja á svið sýningu og fékk 5000 manns til að mæta - en það er sami áhorfendafjöldi og horfir á mig æfa á hverjum degi.

Ég gæti auðveldlega mætt til Englands og dregið að fleiri áhorfendur en hann, en enginn veit hver Hatton er í Bandaríkjunum. Hann fær ekki sömu peninga fyrir bardaga og ég - og þegar ég legg hanskana á hilluna, fæ ég hann til að pússa skóna mína, þvo af mér og slá hjá mér grasið," sagði Mayweather drjúgur með sig.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×