Innlent

100 milljón króna villa rústuð

Hundrað milljón króna hús sem hæstaréttarlögmaður keypti fyrir rösku ári, var rifið í dag.

Það vakti mikla athygli þegar fréttist af því að húsið að Sæbraut 13 á Seltjarnarnesi var keypt á um 100 milljónir króna, samkvæmt heimildum fréttastofu - til þess eins að rífa það. Þrjátíu ára gamalt og var í fínu standi í morgun en er nú rústir einar.

Kaupandinn mun hafa verið Jón Halldórsson hæstaréttarlögmaður. Ekki náðist í hann í dag. Húsið var um 330 fermetrar með tvöföldum bílskúr og stórri útigeymslu. Hjónin Börkur Thorddsen tannlæknir og Adda Gerður Árnadóttir, fyrrum eigendur, hönnuðu húsið í samvinnu við Hilmar Þór Björnsson arkitekt og bjuggu í því frá upphafi. Hilmar sagði í viðtali við fréttastofu þegar húsið var selt að sér fyndist það fullkomið virðingarleysi gagnvart verðmætum, umhverfi og sögu að rífa húsið. Í samtali við fréttastofu í dag sagðist Hilmar óska þess að arkitekt nýs eiganda takist að skapa þarna hús, bæði að formi og efnisvali, sem falli vel að þeirri fallegu götu frá áttunda áratugnum sem Sæbrautin sé.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×