Körfubolti

Leikmenn Indiana enn til vandræða

Jamal Tinsley er duglegur við að koma sér í vandræði utan vallar
Jamal Tinsley er duglegur við að koma sér í vandræði utan vallar NordicPhotos/GettyImages

Lið Indiana Pacers er enn og aftur komið í fréttirnar á röngum forsendum en í dag greindi Indianapolis Star frá því að kráareigandi í borginni sakaði þrjá af leikmönnum liðsins um að hafa lamið sig illa aðfararnótt þriðjudags. Tveir af þessum leikmönnum voru einnig í eldlínunni í skotárásinni fyrir utan súlustað í borginni fyrr í vetur.

Leikstjórnandinn Jamaal Tinsley og framherjinn Marquis Daniels voru með í för þegar ekið var á fyrrum leikmann liðisins Stephen Jackson í haust fyrir utan strípibúllu í Indianapolis, en hann hóf skothríð á svæðinu í kjölfarið og á yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir gáleysi.

Þeir Tinsley og Daniels voru aftur í fréttunum að þessu sinni, en þeir tveir, ásamt Keith McLeod eru sagðir hafa lamið kráareigandann eftir að til ryskinga kom á staðnum aðfararnótt þriðjudags.

Leikmennirnir hafa allir þrætt fyrir þetta og neita öllum sökum, en hvað sem öðru líður er ljóst að Larry Bird þarf að fara að setja villingunum í liði sínu hertar útivistarreglur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×