Viðskipti erlent

Óbreyttir stýrivextir á evrusvæðinu

Evrópski seðlabankinn ákvað í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 3,5 prósentum. Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, segir bankann þrátt fyrir þetta fylgjast grannt með verðbólguþróun á evrusvæðinu. Greinendur segja bankastjórann hafa notað svipað orðalag mánuði fyrir næstu hækkun stýrivaxta og gera því ráð fyrir að vextir hækki að nýju í næsta mánuði.

Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 25 punkta í desember.

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 1,9 prósent í desember í fyrra en það er óbreytt þróun frá því í október. Verðbólgan er engu að síður undir 2 prósenta verðbólgumarkmiðum seðlabankans. Helstu liðirnir sem geta aukið frekar á verðbólguna er hækkun á olíuverði, að sögn Trichets.

Greinandi hjá ítalska bankanum UniCredit er samhljóða öðrum greinendum en hann segir að greina megi frekari hækkun stýrivaxta af orðfæri bankastjórans. Gerir hann ráð fyrir að vextir hækki næst á öðrum ársfjórðungi þessa árs og geti svo farið að þeir standi í 4 prósentum um mitt þetta ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×