Innlent

Sýknaður af ákæru um frelsissviptingu

Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um frelsissviptingu og sneri þannig við dómi héraðsdóms sem dæmt hafði manninn í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haldið starfsmanni Orkuveitu Reykjavíkur nauðugum í um hálfa klukkustund á skrifstofu fyrirtækis hans í Kópavogi.

Maðurinn hafði komið að starfsmanni OR, sem var kona, í sameignarhluta hússins þar sem konan hafði lokað fyrir rafmagn til þess hluta hússins sem maðurinn starfaði í vegna ætlaðra vangoldinna reikninga þrátt fyrir að fyrir lægi að maðurinn hefði greitt fyrir rafmagnsnotkun í húshlutanum fram yfir umræddan tíma.

Féllst konan á að koma með manninum inn á skrifstofu hans í húsinu en hann vildi að hún yrði á staðnum þar til skýringar hefðu fengist hjá Orkuveitunni á lokunaraðgerðinni, og síðar, eftir að hringt var á lögreglu, þar til hún væri komin á staðinn.

Í dómnum var litið til þess að konan hefði sjálfviljug farið með mannum inn á skrifstofu hans. Þá var talið ósannað að konan hefði leitað útgöngu úr húsnæðinu meðan á þessu stóð og þar með að ákærði hefði hindrað slíkar fyrirætlanir með valdi. Enn fremur var litið til þess hversu stuttan tíma atburðirnir stóðu yfir og í ljósi alls þessa var ekki fallist á að maðurinn hefði svipt konuna frelsi sínu. Var hann því sýknaður og skaðabótakröfu vísað frá dómi.

Einn dómari, Ingibjörg Benediktsdóttir, skilaði sératkvæði og taldi manninn hafa svipt konuna frelsi sínu og því bæri að sakfella hann og staðfesta úrskurð héraðsdóms.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×