Erlent

Beið bana í eldsvoða

Íslenskur maður lét lífið í bruna í geymslu við veitingahús í Stokkhólmi í fyrrinótt. Orsakir slyssins eru óljósar en Stokkhólmslögreglan vinnur að rannsókn þess.

Það var um þrjúleytið í fyrrinót sem lögregla og slökkvilið fengu tilkynningu um reyk í sorpgeymslu við veitingastaðinn Engelen í Gamla Stan, gamla bænum í Stokkhólmi. Þegar geymslan var opnuð fannst maðurinn látinn þar inni. Að sögn Stokkhólmslögreglunnar er hvorki vitað um eldsupptök né hvað maðurinn var að gera einsamall í geymslunni. Hún er læst utanfrá og því aðeins hægt að komast í hana úr veitingastaðnum. Vitað er að maðurinn var á veitingastaðnum fyrr um kvöldið með vinum sínum en hann var staddur í Stokkhólmi í tengslum við vinnu sína. Búist er við að dánarorsök liggi fyrir strax eftir helgi en í bili segir lögregla ekki ástæðu til að ætla að manninum hafi verið ráðinn bani heldur er líklegra að um hörmulegt slys hafi verið að ræða. Maðurinn sem lést er á fertugsaldri og lætur eftir sig unnustu og barn. Ekki verður greint frá nafni hans að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×