Erlent

Upplýsingum var hagrætt til að réttlæta innrás

Carl Levin, formaður hermálanefndar öldungadeildar bandaríska þingsins, á fundinum í dag.
Carl Levin, formaður hermálanefndar öldungadeildar bandaríska þingsins, á fundinum í dag.

Formaður hermálanefndar öldungadeildar bandaríska þingsins gaf í dag til kynna að upplýsingum sem notaðar voru við ákvarðanatöku fyrir Íraksstríðið hefði verið hagrætt.

Carl Levin, formaður nefndarinnar, sagði þetta eftir yfirheyrslur á starfsmönnum varnarmálaráðuneytisins. Í þeim kom fram að einn starfsmaður varnarmálaráðuneytisins hefði tengt al-Kaída við Írak og stjórn Saddams Hússeins án þess að hafa fyrir því sannanir.

Maðurinn sem samdi skýrsluna, Doug Feith, stendur samt við hana. Hann bendir á að yfirmaður hans hafi samþykkt hana á sínum tíma. Við rannsókn var ekki hægt að tengja Feith við ólöglegt athæfi og því var ekkert aðhafst í málinu. Skýrslan er ríkisleyndarmál sem stendur en Levin vill að hún verði gerð aðgengileg almenningi.

Í skýrslunni er fullyrt að háttsettur leyniþjónustumaður Íraka hafi hitt Mohammed Atta, einn af þeim sem skipulögðu árásirnar á New York. Fundur þeirra átti sér aldrei stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×