Erlent

Þrír gangast við barni Önnu Nicole Smith

Þótt bandaríska fyrirsætan Anna Nicole Smith sé öll er dramatíkinni í kringum hana langt í frá lokið. Nú stendur styrinn um faðerni einkadóttur hennar en þrír menn gera tilkall til þess.

Anna Nicole Smith fannst látin á hótelherbergi sínu í bænum Seminole í Flórída á fimmtudagskvöldið. Krufning á líki hennar fór fram í gær en ekkert kom þar í ljós sem útskýrt gat dánarorsök þessarar umtöluðu konu. Dánardómstjórinn útilokar ekki að of stór lyfjaskammtur sé orsökin en niðurstöður eiturefnarannsóknar munu liggja fyrir eftir nokkrar vikur.

Smith var ekkja aldins auðkýfings sem lést fyrir rúmum áratug og hún lætur sjálf eftir sig fimm mánaða gamla dóttur sem allar líkur eru á að bíði arfur upp á hundruð milljóna dala. Deilt hefur verið um faðerni barnsins og nú þegar Smith er öll er útlit fyrir að þær magnist um allan helming. Smith hélt því sjálf fram að lögmaður hennar og unnusti, Howard Stern, væri faðirinn en fyrir nokkru krafðist fyrrverandi kærasti hennar, Larry Birkhead, DNA-rannsóknar til að sýna fram á að hann ætti barnið. Í gær bættist svo þriðji kandídatinn við, Frederick von Anhalt, prins og eiginmaður leikkonunnar Zsa Zsa Gabor, en að hann sögn áttu þau Smith í alllöngu ástarsambandi. Dómstóll tekur faðernismálið fyrir þann 20. febrúar og hefur dómari fyrirskipað að lík Smith verði varðveitt þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×