Erlent

Kjarnorkuáætluninni verður haldið til streitu

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, segir að Íranar ætli að halda kjarnorkuáætlun sinni til streitu en um leið muni þeir ekkert aðhafast sem brjóti í bága við alþjóðalög. Tíu dagar eru þangað til fresturinn sem Íranar fengu hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að hætta auðgun úrans rennur út.

Ahmadinejad flutti ávarp á fjöldafundi í Teheran, höfuðborg Írans, í tilefni þess að 28 ár eru liðin frá klerkabyltingunni í landinu. Nokkur eftirvænting ríkti fyrir ræðu hans enda var búist við að forsetinn myndi lýsa því yfir að 3.000 nýjar skilvindur yrðu settar upp í kjarnorkuverinu í Natanz sem myndu margfalda getu ríkisins til að auðga úran, sem er forsenda smíði kjarnavopna. Ekkert slíkt kom fram í máli Ahmadinejads í morgun en þó ítrekaði hann að ríkið myndi halda áfram að þróa kjarnorku í friðsamlegum tilgangi og í samræmi við alþjóðalög. Íranar myndu ekki segja sig frá sáttmálanum um takmörkun á útbreiöslu kjarnorkuvopna en það væri niðurlægjandi fyrir þá að leggja áform sín algerlega á hilluna. Forsetinn gagnrýndi ennfremur ríkisstjórnir Vesturlanda sem réttu fram sáttahönd en krefðust þess um leið að Íranar gengju að öllum þeirra kröfum.

Á meðan forsetinn flutti ávarp sitt var kjarnorkuáætlunin skeggrædd á ráðstefnu 250 áhrifamanna á sviði öryggismála sem fram fer í München í Þýskalandi. Ali Larjani, aðalsamningamaður þeirra, kvaðst þar fullviss um kjarnorkudeiluna megi leysa með viðræðum. Tíu dagar eru þangað til sá frestur sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf Írönum til að hætta úranvinnslu rennur út. Að óbreyttu stefnir allt í að refsiaðgerðir ráðsins gegn Írönum verði hertar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×