Körfubolti

Pat Riley ætlar að snúa aftur eftir stjörnuleikinn

Riley stefnir á að mæta í slaginn þann 21. febrúar þar sem Miami spilar tvö kvöld í röð í Texas - fyrst gegn Houston og svo þá gegn Dallas
Riley stefnir á að mæta í slaginn þann 21. febrúar þar sem Miami spilar tvö kvöld í röð í Texas - fyrst gegn Houston og svo þá gegn Dallas NordicPhotos/GettyImages

Harðjaxlinn Pat Riley mun snúa aftur í þjálfarastólinn hjá NBA meisturum Miami strax eftir stjörnuhelgi ef marka má fréttir sem láku út í gærkvöldi. Þetta mun verða formlega tilkynnt á blaðamannafundi á miðvikudaginn. Riley hefur verið frá keppni síðan í byrjun janúar þegar hann gekkst undir aðgerð á hné og mjöðm, en engum datt í hug að hann kæmi til baka fyrr en í fyrsta lagi undir vorið.

Ron Rothstein aðstoðarþjálfari hefur verið við stjórnvölinn í fjarveru Riley, en gengi liðsins hefur heldur skánað á síðustu dögum og vikum og munar þar líklega mest um endurkomu Shaquille O´Neal úr meiðslum.

Riley var spurður að því á sínum tíma hversu lengi hann teldi sig þurfa vera frá keppni vegna meiðslanna. Hann skaut sér undan þeirri spurningu og sagði það vera lækna að meta slíkt. Blaðamenn vísuðu þá til þess langa tíma sem það hefði tekið kollega hans Phil Jackson og Larry Brown að jafna sig eftir uppskurði - en Riley blés á það og sagðist miklu meiri nagli en þeir. Ef svo fer sem horfir og Riley stýrir Miami á ný þann 21. febrúar í Houston, er líklega nokkuð til í því.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×