Innlent

Hnetusmjör innkallað vegna gruns um salmonellusýkingu

Verið er að rannsaka hvort salmonellusýking geti verið í Peter Pan hnetusmjöri.
Verið er að rannsaka hvort salmonellusýking geti verið í Peter Pan hnetusmjöri.

Peter Pan hnetusmjör hefur verið innkallað vegna gruns um salmonellusýkingu. Allir sem eiga Peter Pan krukkur með framleiðslunúmeri sem hefst á tölunum 2111 ættu að farga þeim eða skila til verslunarinnar þar sem þær voru keyptar.

Heildverslunin Innnes hefur stöðvað sölu á Peter Pan hnetusmjöri með þessu framleiðslunúmeri og sent tilkynningu um innköllun til verslana og annarra viðskiptavina. Innnes segir að ekki sé vitað um neina sýkingu hérlendis.

Framleiðandinn ConAgra tilkynnti í gær um innköllun á viðkomandi hnetusmjöri eftir að bandaríska sjúkdómaeftirlitið (Centers for Disease Control and Prevention) fann fylgni milli salmonellusýkingar og neyslu á hnetusmjöri með framleiðslunúmeri sem byrjar á 2111.

"Þó að engin af ítarlegum prófunum sem við höfum gert hafi sýnt salmonellusýkingu þá grípum við til þessara aðgerða því heilbrigði og öryggi neytandans er í fyrirrúmi hjá okkur," segir Chris Kircher, talsmaður ConAgra.

Hann segir að ConAgra sé að vinna með bandaríska matvælaeftirlitinu að rannsókn á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×