Körfubolti

Gerald Green sigraði í troðkeppninni

NordicPhotos/GettyImages

Gerald Green frá Boston Celtics sigraði með glæsibrag í troðkeppninni í NBA sem haldin var um stjörnuhelgina í Las Vegas í nótt. Green þótti sýna bestu tilþrifin fyrir troðslur sínar fyrir framan dómnefnd sem samanstóð af mönnum eins og Michael Jordan og fleiri fyrrum troðkóngum.

Green leitaði í smiðju annars Boston-leikmanns og fyrrum troðkóngs í nokkrum af troðslum sínum en Green er með einn mesta stökkkraft allra leikmanna í NBA deildinni.

Stóri maðurinn Dwight Howard hjá Orlando þótti einnig sýna lipra takta og ein troðslan hans fólst í því að hann teygði sig nánast upp á topp á spjaldinu áður en hann tróð boltanum. Það voru Green og Robinson sem mættust í úrslitum og Green hafði betur þegar hann stökk yfir ritaraborð sem stillt var upp í teignum og tróð með vindmyllu. Þessi troðsla fékk fullt hús frá dómurum.

Jason Kapono frá Miami sigraði glæsilega í þriggja stiga skotkeppninni þegar hann fékk 24 stig af 30 mögulegum í úrslitum gegn ríkjandi meistaranum Dirk Nowitzki og Gilbert Arenas. Þessi 24 stig voru aðeins einu stigi frá metinu í keppninni sem er í eigu Craig Hodges sem vann keppnina þrisvar á sínum tíma. Kapono er með bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni í vetur.

Dwyane Wade varði titil sinn í hæfileikakeppninni og lið Detroit var hlutskarpast í þrímenningskeppninni. Segja má að Charles Barkley hafi þó stolið senunni þegar hann hafði betur í spretthlaupi gegn dómaranum Dick Bavetta og gaf hann peningaverðlaunin sem hann fékk til góðgerðarmála.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×