Innlent

Embætti umboðsmanns aldraðra verði stofnað

MYND/GVA

Velferð eldri borgara verði í öndvegi næsta kjörtímabil og stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra. Þetta eru áhersluatriði Samfylkingarinnar og samtakanna 60+ í málefnum eldri borgara. Í yfirlýsingu segir að lögð sé áhersla á mannsæmandi lífeyri, svigrúm til að auka tekjur án skerðingar tryggingabóta og sanngjarna skattlagningu aldraðra.

Á baráttufundi á Hótel Nordica í Reykjavík í dag kynntu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, Ellert B. Schram formaður 60+ og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður áherslur flokksins og 60+.

Þegar hafa verið haldnir fundir á nokkrum stöðum á landinu, en í kvöld verður fundur á Egilsstöðum. Í Kópavogi verður fundur annað kvöld og á fimmtudagskvöld á Akureyri og Húsavík.

Helstu áherslur flokksins eru að lífeyrir fylgi framfærlu lífeyrisþega eins og hún mælist í neyslukönnun Hagstofunnar hverju sinni, frítekjumark verði hækkað, tekjur maka skerði ekki bætur, skattar á lífeyri verði lækkaðir í tíu prósent, skattleysismörk hækkuð, uppbygging fjölbreytilegra búsetuúrræða, heimahjúkrun aukin, áhersla á að útrýma biðlistum og að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um fundina og áhersluatriðin á vef Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×