Erlent

64 létu lífið í sprengjuárás

Rústir annars lestarvagnins eftir að tókst að slökkva eldana.
Rústir annars lestarvagnins eftir að tókst að slökkva eldana. MYND/AP

Að minnsta kosti 64 létu lífið í sprengjuárás á járnbrautarlest á Indlandi í gærkvöldi. Farþegar í lestinni, sem var á leið til Pakistan, sögðust hafa heyrt tvær sprengingar þegar lestin var stödd um 80 kílómetra fyrir norðan Delhi. Margir farþegar slösuðust og talið er að tala látinna gæti hækkað. Sprengjurnar tvær sprungu nær samstundis og lestarvagnarnir tveir urðu fljótt eldi að bráð.

Talsmenn lögreglu segja að tvær ósprungnar sprengjur hafi fundist stuttu seinna, ein um borð í lestinni og önnur á lestarteinunum sjálfum. Flestir hinna látnu voru Pakistanar.

Indverskir embættismenn segja að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Stjórnvöld í Pakistan fordæmdu í dag sprengingarnar og sögðu að það yrði að refsa þeim sem bæru ábyrgð á verknaðinum. Enn hefur enginn lýst ábyrgðinni á hendur sér. Stjórnmálaskýrendur telja þó líklegt að aðskilnaðarsinnar í Kasmírhéraði beri ábyrgð á þeim. Viðbúnaður hefur verið aukinn í indverskum borgum vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×