Erlent

Prodi beðinn um að sitja áfram

Ítalíuforseti hefur beðið Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, um að sitja áfram í embætti. Prodi sagði af sér á miðvikudaginn.

Giorgio Napolitano, Ítalíuforseti, boðaði Prodi til fundar við sig klukkan tíu í morgun. Töldu stjórnmálaskýrendur á Ítalíu það eindreigna vísbendingu um að forsetinn ætlaði að bjóða honum og stjórn hans að sitja áfram og sú varð raunin. Þingið þarf þó að staðfesta þetta í atkvæðagreiðslu eftir helgina.

Prodi sagði af sér á miðvikudaginn eftir að stjórn hans tapaði atkvæðagreiðslu um utanríkisstefnu landsins í þinginu. Við tóku neyðarfundir í forsetahöllinni þar sem rætt var fram og til baka um næstu skref. Allt stefndi í að 61. ríkisstjórn Ítalíu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar væri að liðast í sundur.

Það var svo í gær sem Prodi greindi frá því að hann gæti haldið stjórninni saman þrátt fyrir að nokkrir stjórnarþingmenn hafi hlaupist undan merkjum í atkvæðagreiðslunni á miðvikudaginn.

Stjórnmálaskýrendur segja að með þessu sé forsetinn aðeins að fresta því óumflýjanlega. Stjórnin sé veik og muni á endanum springa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×