Að minnsta kosti tveir létu lífið og fleiri er saknað eftir að jörðin opnaðist undir húsum þeirra í fátækrahverfi í Guatemalaborg, í gærkvöldi. Risastór eitthundrað metra djúp hola opnaðist skyndilega og gleypti húsin. Yfir eittþúsund hús voru rýmd af ótta við að holan stækkaði.
Giskað er á að holan hafi opnast vegna mikilla rigninga og leka í klóakrörum neðanjarðar. Talsmaður borgaryfirvalda segir að vitað hafi verið um þetta vandamál og að herinn hafi verið að íhuga að nota sprengiefni til þess að fjarlægja stíflur úr rörunum.
Mikinn fnyk leggur upp úr holunni og heyra mátti mikinn vatnsflaum þar niðri. Jörðin skalf og nötraði skömmu áður en holan opnaðist. Vörður er staðinn um svæðið, því bæði er talin hætta á að holan stækki og að fleiri slíkar myndist.