Sport

Venus vann í Memphis

Venus Williams er að nálgast sitt besta form.
Venus Williams er að nálgast sitt besta form. MYND/Getty

Tenniskonan Venus Williams sýndi og sannaði að hún er ekki dauð úr öllum æðum með því að bera sigur úr býtum á opna Memphis-meistaramótinu í Bandaríkjunum í nótt. Williams vann auðveldan sigur á Shahar Peer frá Ísrael í úrslitum mótsins, 6-1 og 6-1. Þetta var fyrsta mótið sem Venus tekur þátt í frá því í október á síðasta ári.

Venus hefur átt við þrálát meiðsli að stríða síðustu mánuði og höfðu margir hreinlega afskrifað hana til frekari frama í íþróttinni. Ekki eru mörg ár síðan Venus var stigahæsti kvenkyns spilari heims og bar höfuð og herðar yfir andstæðinga sína í íþróttinni.

"Þetta hefur verið dásamleg vika," sagði Venus eftir að sigurinn var í höfn. "Ég var alltaf sannfærð um að ég myndi vinna leikinn. Ég spilaði með mikið sjálfstraust og fannst ég alltaf hafa svör við hennar leik."

Peer sagðist einfaldlega hafa mætt ofjarli sínum í viðureigninni. "Hún spilaði betur í úrslitunum en hún gerði í nokkrum öðrum leik á mótinu. Hún var frábær á meðan ég var að spila undir getu," sagði Peer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×