Ein vinsælasta og virtasta söngkona Afríku, Oumou Sangare frá Malí, verður eitt af aðalnúmerunum á tónlistarhátíðinni Vorblót –Rite of Spring, sem verður haldin í Reykjavík dagana 17. til 19. maí.
Oumou hefur sungið inn á plötur og farið í tónleikaferðir með listamönnum á borð við Baaba Maal, Fema Kuti og Boukman Ekseryans. Hún er stundum kölluð söngfugl wassoulou-tónlistarinnar, sem á rætur sínar að rekja til hefðbundinnar veiðitónlistar Vestur-Afríku. Textar hennar innihalda oft tilvísanir í ást, sjálfstæði og kvenfrelsi.
Goran Bregovic og hljómsveit hans Weddings and Funerals Band, skoska hljómsveitin Salsa Celtica, Tómas R. Einarsson og Stórsveit Samúels J. Samúelssonar munu einnig koma fram á Vorblótinu. Dagskrá hátíðarinnar fer fram á Nasa og í Laugardalshöll. Miðasala á hátíðina hérlendis hefst um næstu mánaðamót ef frá er talin miðasala fyrir tónleika Bregovic. Fer hún fram í verslunum Skífunnar, BT Egilsstöðum, Selfossi og Akureyri og á midi.is.
Fyrsta Vorblótið á síðasta ári hlaut góðar viðtökur innlendra sem erlendra blaðamanna. Blaðamenn frá BBC, Mojo, Songlines og fleiri miðlum, sem mættu á hátíðina í fyrra, voru hæstánægðir með dagskrána og umgjörð hennar. Búist er við enn fleiri blaðamönnum á hátíðina í ár.