Erlent

Lögregla rýmdi Ungdomshuset

Mynd/TV2

Lögreglan í Kaupmannahöfn gerði áhlaup og rýmdi Ungdomshuset á Norrebro á svipstundu í morgun. Þegar hefur fjöldi mótmælanda safnast saman og búist er við hörðum átökum. Lögregla hefur handtekið um 20 mótmælendur, þ.á.m. hóp sem reyndi að komast framhjá vegtálmum.

Lögreglan mætti með mikið lið og þyrlur og henti öllum út á innan við hálftíma. Sérsveitarmenn sigu niður á þak hússins sem hefur verið hertekið af ungmennum undanfarnar vikur en miklar deilur hafa staðið um hvort starfsemi hússins mætti halda áfram.

Lögregla hefur umkringt húsið með vegatálmum og eftirliti og varna fólki að koma nálægt húsinu. Þegar í morgun hefur fjöldi svartklæddra ungmenna safnast saman við húsið og reyna þau hvað þau geta til að komast fram hjá tálmum lögreglunnar. Samkvæmt vefútgáfu Politiken hafa ungmennin hrópað að lögreglu og kastað grjóti í átt að lögreglumönnum.

Í vetur brutust mikil átök út milli lögreglu og mótmælenda við Ungdomshuset og hefur lögregla búið sig undir að aukin harka færist í leikinn í dag. Ungmenni hafa átt aðstöðu í húsinu í aldarfjórðung en borgin seldi húsið fyrir rúmum fimm árum og síðan 2003 hafa nýir eigendur reynt að fá unga fólkið úr húsinu, án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×