Rúmenskt par flýtti sér á sjúkrahús eftir ástarleik sem var svo ákafur að konan gleypti gervitennur elskhuga síns. Læknar á sjúrahúsinu ætluðu varla að trúa sínum eigin eyrum, þegar þeir heyrðu ástæðuna fyrir heimsókninni. Þeir urðu þó að trúa sínum eigin augum, því gervitennurnar sáust skýrt og greinilega á röntgenmynd.
Elskendurnir sögðu læknunum að þeim hafi verið orðið svo heitt í hamsi að konan hefði sogið upp í sig neðri góm mannsins, og gleypt hann án þess að þau tækju eftir því fyrr en síðar.
Konan var lögð inn á sjúkrahúsið til vonar og vara, en neðri gómurinn skilaði sér, eðlilega leið, eftir tvo daga. Nei, það er ekki getið um það í fréttinni frá Rúmeníu, hvort elskhuginn tók góminn aftur í notkun.