Erlent

Ætla að rannsaka möttul jarðarinnar

Getty Images
Vísindamenn frá háskólanum í Cardiff í Bretlandi lögðu í dag af stað í leiðangur til þess að kanna hafsbotninn á Atlantshafinu en á staðnum sem þeir ætla að skoða vantar jarðskorpuna. Möttull jarðarinnar er þar óvarður en svæðið, sem er mörg þúsund ferkílómetrar að stærð, uppgötvaðist nýlega.

Sjávarlíffræðingurinn, Dr. Chris MacLeod, sagði að „Þetta er eins og að finna opið sár á jörðinni. Var einhvern tíman jarðskorpa þarna? Var hún aldrei þarna? Var hún einu sinni þarna og rifnaði svo í burtu? Ef svo er, hvernig og hversvegna?" Hann og fleiri vísindamenn sem eru að fara í leiðangurinn vonast til þess að geta svarað þessum spurningum og mörgum fleiri í honum.

Leiðangurinn verður jómfrúarferð nýs rannsóknarskips þeirra Breta, RSS James Cook. Í ferðinni ætla þeir að kortleggja botninn á svæðinu með sónartækni og senda síðan djúpsjávarbor til þess að ná sýnum úr botninum. Með því vonast þeir til þess að skilja betur hvernig möttullinn er.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi skipsins hérna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×