Erlent

Sjötíu látnir í skjálftanum

Rýma varð byggingar í Malasíu vegna skjáltans, mörg hundruð kílómetra í burtu.
Rýma varð byggingar í Malasíu vegna skjáltans, mörg hundruð kílómetra í burtu. MYND/AP

Óttast er að í það minnsta sjötíu manns hafi týnt lífi þegar tveir jarðskjálftar riðu yfir Súmötru í Indónesíu í morgun. Hús hrundu víða til grunna en engra flóðbylgna hefur þó orðið vart.

Fyrri skjálftinn reið yfir laust fyrir klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma og var hann af stærðinni 6,3. Upptök skjálftans voru um fimmtíu kílómetra frá borginni Padang á eynni Súmötru. Hans varð greinilega vart í Singapúr og Malasíu, mörg hundruð kílómetra í burtu. Um tveimur klukkustundum síðar reið seinni skjálftinn yfir en stærð hans var nákvæmlega sex stig.

Að sögn talsmanns indónesísku ríkisstjórnarinnar fyrr í morgun er talið að í það minnsta sjötíu manns hafi týnt lífi í þessum hamförum. Óttast er að enn fleiri hafi látist því vegir hafa rofnað til bæja á skjálftasvæðunum og þar er jafnframt símasambandslaust. Í Padang og nálægum byggðarlögum virðast mörg hundruð hús hafa hreinlega jafnast við jörðu. Þannig beið hópur barna bana þegar skóli þeirra hrundi til grunna í þorpinu Solok.

Sjúkrahús á skjálftasvæðunum eru yfirfull af slösuðu fólki og þar virðist ríkja algert öngþveiti. Mikill ótti greip að vonum um sig á meðal íbúa svæðisins enda er þeim flóðbylgjan mikla á annan dag jóla 2004 enn í fersku minni þegar 130.000 íbúar Súmötru fórust. Engin flóðbylgja virðist hins vegar hafa farið af stað að þessu sinni enda varð skjálftinn undir landi en ekki hafsbotninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×