Erlent

Ópíumframleiðslan eykst stöðugt

Mikil reiði ríkir í Afganistan vegna árásanna.
Mikil reiði ríkir í Afganistan vegna árásanna. MYND/AP

Hersveitir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan hófu í dag sína hörðustu sókn til þessa gegn uppreisnarmönnum í suðurhluta landsins. Vegna ástandsins í landinu stefnir í að ópíumframleiðsla á árinu verði meiri en dæmi eru um.

4.500 NATO-hermenn og eitt þúsund afganskir hermenn munu á næstu vikum reyna að ná undirtökunum í hinu róstusama Helmand-héraði í Suður-Afganistan en það hefur verið því sem næst stjórnlaust síðustu misseri. Uppreisn talibana er hvað áköfust þar og harðir bardagar hafa geisað þar að undanförnu.

Á meðan formælendur NATO skýrðu frá þessum áformum mótmæltu stúdentar í borginni Jalalabad skotárás hermanna á akandi og fótgangandi bæjarbúa í fyrradag en þeir voru á flótta undan sjálfsmorðsárásarmanni. Níu létu lífið í árásinni og á fjórða tug særðust. Fyrr um daginn fórust níu borgarar í loftárás á hús í Kapisa-héraði, skammt frá Kabúl. Bandarískur herforingi sagði í samtali við AP-fréttastofuna í gær að harmleikurinn í fyrradag glæpamenn sem stæðu fyrir fíkniefnaframleiðslu í héraðinu. Að sögn talsmanna Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna eru teikn á lofti um að ópíumframleiðsla í Afganistan nái nýjum hæðum á þessu ári sökum þess hversu ástandið í suðurhluta landsins er slæmt. Á síðasta ári óx framleiðslan um 59 prósent og verði ekki gripið í taumana stefnir í enn meiri framleiðslu á þessu ári. Suðurhéruðin eru eins og áður sagði ofurseld valdi uppreisnarmanna og eru þeir sagði nota ópíumið til að fjármagna baráttu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×