Erlent

Sögulegur samningur

Fimmtungur orkunotkunar aðildarríkja Evrópusambandsins verður frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020. Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins samþykktu þetta í morgun. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segir samninginn marka tímamót.

Samningurinn er sagður djarfur en hann var samþykktur af 27 leiðtogum ríkja Evrópusambandsins á loftslagsráðstefnu í Brussel í morgun. Í honum er gert ráð fyrir að ekki minna en 20 prósent af orkunotkun ríkjanna komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020, meðal annars vind- og sólarorku. Áður hafði verið miðað við sex prósent. Þess má geta að hér á landi er hlutfallið 72 prósent. Samkomulagið er málamiðlun en ákveðin ríki mótmæltu því harðlega. Fátækari ríki Austur-Evrópu töldu að það yrði þeim fjárhagslega ofviða að standa við markmið samkomulagsins. Auk þess voru Frakkland, Tékkland og Slóvakía, ósátt við hugmyndirnar. En allir samþykktu, enda kom í ljós að í samkomulaginu er gert ráð fyrir að kjarnorka geti átt þátt í berjast gegn hlýnun jarðar.

Í samkomulaginu er einnig gert ráð fyrir að aðildarríkin hafi árið 2020 dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 20 prósent - miðað við losunina eins og hún var árið 1990. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, lýsti samkomulaginu sem risaskrefi fram á við.

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins Jose Manuel Barroso segir Evrópu nú í forystu í baráttunni gegn hlýnun jarðar og að samkomulagið sé sögulegt.

Leiðtogar Evrópusambandsins vonast til að þetta skref hvetji þær þjóðir sem mest menga, eins og Bandaríkin og Kína, til að fallast á verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

 

 

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×