Erlent

Fyrstu frjálsu kosningarnar í Máritaníu í 50 ár

Frá kosningafundi Sidi Ould Cheikh Abdallahi, en hann er talinn líklegur sigurvegari í kosningunum í dag.
Frá kosningafundi Sidi Ould Cheikh Abdallahi, en hann er talinn líklegur sigurvegari í kosningunum í dag. MYND/AFP
Kosningar eru hafnar í norðvestur-Afríkuríkinu Máritaníu en þetta verða fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu í tæplega fimmtíu ár. Meira en ein milljón manna verða á kjörskrá og kjósa á milli 19 frambjóðenda.

Árið 2005 tók Ely Ould Mohamed völdin eftir valdarán en hann velti þá einráðinum Maaouiya Ould Taya úr sessi. Mohamed lofaði því um leið að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að koma á fót lýðræði hið fyrsta. Nú er stundin runnin upp.

Síðastliðnar tvær vikur hafa frambjóðendur auglýst sjálfa sig og kom ekki til neinna átaka á milli frambjóðenda eða stuðningsmanna þeirra. Þeir sem nú ráða ríkjum mega ekki bjóða sig fram í kosningunum og er það gert til þess að tryggja að þær fari rétt og vel fram.

Margir íbúar landsins segja að þeir vilji fyrst og fremst að tekjum af auðlindum landsins verði dreift jafnt á milli allra. Á meðal auðlinda eru olía, járn og gjöful fiskimið. Svartir íbúar Máritaníu leitast einnig eftir réttlæti en þeir hafa verið beittir mismunun í gegnum tíðina. Til að mynda var þrælahald ekki bannað með lögum fyrr en 1981 en ýmsir mannréttindahópar segja að það viðgangist enn á sumum stöðum í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×