Erlent

Illa búið að breskum hermönnum

Yfir tuttugu þúsund breskir hermenn eru sagðir þjást af þunglyndi og öðrum geðsjúkdómum eftir að hafa verið sendir til Íraks og Afganistans. Þúsund manns úr þessum hópi eru á götunni og sú heilbrigðisþjónusta sem þeim býðst er bágborin. Nokkur dæmi eru um að þeir sem gegnt hafa herþjónustu í Írak hafi stytt sér aldur.

Dagblaðið Independent on Sunday birtir í dag ítarlega skýrslu um heilsufar hermanna sem gegnt hafa herþjónustu í Írak og Afganistans og þann aðbúnað sem þeir fá þegar þeir snúa aftur heim. Niðurstöður hennar eru sagðar mun uggvænlegri en búist hafði verið við. Hátt í 22.000 hermenn sem sendir hafa verið til Íraks eru sagðir hafa þróað með sér þunglyndi, kvíða og aðra geðsjúkdóma eða raskanir, 24 hermenn hafa stytt sér aldur frá innrásinni 2003 og yfir eitt þúsund fyrrverandi hermenn eru á götunni. Búist er við að fjölga muni í þessum hópum eftir því sem stríðsreksturinn dregst á langinn. Þá er fullyrt að sú heilbrigðisþjónusta sem býðst hermönnum sem koma særðir heim er oft og tíðum afar léleg. Dæmi eru um að hermenn hafi þurft að liggja í eigin saur vegna ónógrar aðhlynningar hjúkrunarfólks, mörgum hefur verið neitað um verkjalyf og hávaði og róstur á sjúkradeildum eru algeng.

Í ljósi þessara tíðinda hefur hópur stjórnmálamanna, hernaðarsérfræðinga og ættingja látinna hermanna skrifað undir skjal sem birt er í blaðinu í dag þar sem skorað er á Tony Blair forsætisráðherra að veita breskum hermönnum sem hætta lífi sínu fyrir land sitt þá meðferð sem þeir eiga skilda. Skjalið verður svo formlega afhent Blair þann 20. mars, þegar fjögur ár eru liðin frá innrásinni í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×