Erlent

Simbabve nálgast suðumark

Yfirvöld í Simbabve handtóku í dag einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu fyrir að rjúfa bann við pólitískum samkomum. Ástandið er afar viðkvæmt í landinu enda er atvinnuleysi mikið og efnahagurinn því sem næst í rúst.

Handtökurnar í dag voru svar stjórnvalda við bænafundi í höfuðborginni Harare sem stjórnarandstæðingar, verkalýðsfélög og fleiri borgaraleg samtök stóðu undir yfirskriftinni "Björgum Simbabve". Að mati lögreglunnar braut hann í bága við bann við pólitískum samkomum sem sett var í síðasta mánuði og því ákvað hún að láta til skarar skríða. Öllum leiðum að fundarstaðnum var lokað á meðan lögregla beitti táragasi og vatnsdælum gegn fundarmönnum. Hátt í hundrað manns voru handteknir, þeirra á meðal Morgan Tsvangirai, leiðtogi eins af stærstu stjórnarandstöðuflokkunum. Að sögn sjónarvotta létu lögreglumenn högginn dynja á honum áður en honum var ýtt inn í bíl og ekið á brott.

Ólgan í Simbabve virðist vera að nálgast suðumark, ekki síst vegna hörmulegs efnahagsástands. Atvinnuleysi er mikið og verðbólga er hvergi hærri í heiminum, eða 1.700 prósent. Robert Mugabe forseti landsins er almennt talinn bera mikla ábyrgð á hversu hörmulegt ástandið í landinu er. Hann hélt rándýra veislu á dögunum í tilefni 83 ára afmælisins síns og lýsti við það tækifæri því yfir að hann hefði engin áform um að láta af embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×