Erlent

45 ára ferli að ljúka

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, tilkynnti í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri.
Jacques Chirac, Frakklandsforseti, tilkynnti í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. MYND/AP

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri. Þetta tilkynnti hann formlega í gærkvöldi. Þar með lýkur 45 ára ferli eins litríkasta stjórnmálamanns Frakklands.

Chirac er 74 ára og hefur verið forseti í 12 ár, eða frá 1995. Hann var helsti arftaki Charles de Gaulle á hægri væng franskra stjórnmála og var skipaður forsætisráðherra árið 1974. 1977 varð hann borgarstjóri í París. Árið 1986 tók hann aftur við forsætisráðherraembættinu og gengdi því í tvö ár samhliða því að stýra Parísarborg. Því hætti hann svo 1995 þegar hann var kjörinn forseti eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Francois Mitterand 1981 og 1988.

Hann var endurkjörinn með miklum mun 2002. Stjórnmálaskýrendur vilja þó meina að þar hafi kjósendur frekar verið að hafna þjóðernissinnanum Jean Marie Le Pen sem komst óvænt í aðra umferð kosninganna.

Reynt var að ráða Chirac af dögum á Bastillu daginn 2002. Hann sakaði ekki. Tilræðismaðurinn var dæmdur í 10 ára fangelsi 2004.

Chirac hefur verið vinsæll í Frakklandi þrátt fyrir ásakanir um spillingu. Hann naut sérstakrar hylli þegar hann stóð upp í hárinu á Bandaríkjamönnum og mótmælti Íraksstríðinu.

Vinsældir hans hafa þó dvínað og var ekki búist við að hann sæktist eftir endurkjöri þótt hann hefði ekkert gefið út um það fyrr en í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi. Hann sagðist ætla að þjóna Frökkum á öðrum vettvangi.

Chirac lýsti ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, ekki einu sinni innanríkisráðherrann og flokksbróður sinn Nicolas Sarkozy. Helstu andstæðingar hans eru Segolene Royal, frambjóðandi Sósíalista, og miðjumaðurinn Francois Bayrou. Sarkozy hefur naumt forskot samkvæmt nýjustu könnunum. Le Pen ætlar í slaginn í fimmta sinn en er ekki talinn muni hafa erindi sem erfiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×