Erlent

Óeirðir í Ungverjalandi

Til átaka kom milli lögreglu og öfgasinnaðra hægrimanna á götum Búdapest í Ungverjalandi í gærkvöldi. Lögregla beitti táragasi og vatnsdælum til að dreifa mannfjöldanum og óeirðir mögnuðust.

Ungverjar fögnuðu í gærkvöldi skammvinnu sjálfstæði Ungverjalands árið 1848. Mótmæli gegn ríkisstjórinni voru einnig haldin og blönduðust þau við fund öfgasinna og kynþáttahatar. Þar var fasistafánum flaggað og slagorð hrópuð. Meðal ræðumanna var David Irving, breskur sagnfræðingur sem hefur afneitað helför gyðinga.

Hátíðar- og fundarhöld í borginni fóru friðsamlega fram þar til uppúr sauð þegar leiðtogi þjóðernissinna, Gyorgy Budahazy, var handtekinn. Hann var einn höfuðpauranna að baki uppþotum í fyrra og hafi farið hultu höfði síðan þá. Lögregla þurfti að nota táragas og vatnsdælur til að halda aftur af um þúsund snoðhausum og öfgamönnum sem létu grjóti rigna yfir lögreglu. Fimm til átta hundruð manna hópur úr röðum æsingamanna reyndi að brjóta sér leið í gegnum girðingar lögreglu og að Budahazy.

Aðrir mótmælendur létu sér örlög Budahazys í léttu rúmi liggja og kröfuðst frekar afsagnar Ferencs Gyurcsanys, forsætisráðherra. Mótmælendur úr þeirra hópi höfðu fjölmennt á samkomu þar sem ráðamenn voru viðstaddir. Þar létu þeir í sér heyra og héldu því áfram fram eftir kvöldi.

Á síðustu mánuðum hefur ríkisstjórn Ungverjalands hækkað skatta og þjónustugjöld. Dýrara er fyrir námsmenn að fara í háskóla og fjárframlög til ýmissa atvinnugreina hafa verið lækkuð. Gyurcsany hefur verið í vandræðum síðan í september síðastliðnum þegar hann varð uppvís að því að hafa logið um efnahag landsins til að tryggja það að stjórn hans héldi velli í þingkosningum í apríl í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×