Erlent

Táragasi beitt á sjónvarpsstöð

Óeirðirnar í Pakistan hafa nú staðið í viku.
Óeirðirnar í Pakistan hafa nú staðið í viku.

Pakistanskir óeirðalögreglumenn réðust í dag inn í einkarekna sjónvarpsstöð og úðuðu þar táragasi, eftir að fréttastjórinn neitaði að hætta beinum útsendingum af óeirðum í höfuðborginni Islamabad. Mótmælin voru vegna þess að forseta hæstaréttar landsins var vikið úr embætti síðastliðinn föstudag.

Sjónvarpsstöðin er vel staðsett í miðborg Islamabad, þar sem óeirðirnar hafa verið hvað mestar síðustu vikuna. Uppi á þaki hennar er sjónvarpsmyndavél sem notuð er til þess að sýna beint frá óeirðunum. Lögreglan krafðist þess að slökkt yrði á þessari myndavél.

Iftikhar Chaudary, forseti hæstaréttar Pakistans nýtur mikillar virðingar í landinu og sakirnar sem á hann voru bornar voru mjög óljóst orðaðar. Chaudary er mjög sjálfstæður dómari og menn velta því fyrir sér hvort brottvikning hans sé vegna þess að hann kynni að vera andvígur því að Perves Musharraf, forseti héldi áfram embætti sínu sem yfirmaður heraflans, en samkvæmt stjórnarskránni á hann að láta af því embætti á þessu ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×