Erlent

Mugabe hótar að reka erlenda erindreka úr landi

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. MYND/AFP
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur hótað því að reka úr landi alla vestræna erindreka en hann sakar þá um að styðja stjórnarandstöðuna í landinu. Hann sagði þá þurfa að „hegða sér almennilega" ellegar eiga á hættu að vera reknir úr landi.

Stjórnvöld í Zimbabwe hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir það hvernig þau tóku á stjórnarandstæðingum sem ætluðu sér að halda bænafund. Yfirvöld halda því hins vegar fram að það hafi verið stjórnarandstæðingar sem að áttu upptökin að átökunum.

Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, þurfti að leita á sjúkrahús eftir að hafa verið handtekinn af lögreglu. Hann fullyrðir að sér hafi verið misþyrmt í haldi lögreglunnar og að hún hafi verið að reyna að valda honum eins miklum skaða og hægt var. Hann hefur nú yfirgefið sjúkrahúsið.

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist harkalega við ástandinu í Zimbabwe og hefur utanríkisráðherra Bretlands, Margaret Beckett, hvatt Evrópuríki og Bandaríkin til þess að herða refsiaðgerðir gegn landinu. Sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum hefur einnig farið fram á að öryggisráðinu verði gefin skýrsla um ástand mála í Zimbabwe.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×