Erlent

Grunur um að árásir tengist átökum gengja

15 ára unglingsstrákur var stunginn til bana í Lundúnum í gærkvöldi. Hann er annar unglingurinn sem hlýtur þau örlög þar í borg á þremur dögum. Í síðasta mánuði voru þrír unglingar skotnir til bana í suðurhluta borgarinnar í þremur mismunandi árásum. Grunur leikur á að ódæðin tengist öll átökum gengja.

Nafn stráksins sem myrtur var í gærkvöldi hefur ekki verið gefið upp. Ráðist var á hann nærri heimavelli knattspyrnuliðsins West Ham í austurhluta Lundúna. Hann var þegar fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Að sögn vitna hlupu tveir menn af vettvangi þar sem ungi maðurinn lá í blóði sínu. Ekki er vitað hvers vegna hann var myrtur. Lögregla skoðar nú upptökur úr eftirlitsmyndavélum og leitar morðvopnsins.

Þremur dögum áður var hinn 16 ára gamli Kodjo Yenga stunginn til bana þar sem hann var á göngu með kærustu sinni í hinum enda borgarinnar, nærri Hammersmith. Fjórir unglingar, tveir 13 ára, einn 15 ára og sá fjórði 16 ára, eru í haldi vegna rannsóknar á því morði. Fjórir unglingar til viðbótar og rúmlega tvítugur karlmaður hafa einnig verðir yfirheyrðir en látnir lausir gegn tryggingu.

Í síðasta mánuði féllu þrír unglingar fyrir byssukúlum í þremur árásum í suðurhluta Lundúna. Grunur lék á að morðin þá tengdust átökum unglingagengja. Ofbeldisglæpir og byssueign voru þá tekin til umræðu á breska þinginu.

Breska lögreglan hefur ekkert viljað gefa út um það hvort morðin nú tengist deilum gengja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×