Erlent

Lík hermanna vanvirt

Fimmtán manns hafa látið í lífið í átökum uppreisnarmanna og sómalska stjórnarhersins í dag, þeim hörðustu frá því íslamistar voru hraktir frá völdum í lok síðasta árs. Kveikt var í líkum hermanna og þau dregin eftir götum höfuðborgarinnar, Mogadishu.

Ólgan í Sómalíu hefur farið stigvaxandi undanfarna þrjá mánuði eða allt frá því að sómalski stjórnarherinn, með aðstoð eþíópískra hersveita, flæmdi á brott hið svonefnda íslamska dómstólaráð sem lagt hafði undir sig stærstan hluta landsins. Uppreisnarmennirnir virðast hafa náð vopnum sínum á ný því árásir þeirra eru orðnar tíðari og markvissari. Nokkrir tugir manna liggja í valnum eftir átök liðinna vikna og talið er að 40.000 manns hafi flúið höfuðborgina Mogadishu. Í morgun náði svo ófriðurinn nýjum hæðum þegar hermenn réðust á bækistöðvar uppreisnarmanna í miðri höfuðborginni. Að minnsta kosti fimmtán féllu í bardögunum og 36 særðust.

Óhugnanlegar myndir voru teknar af því þegar kveikt var í líkum tveggja hermanna og þau dregin um götur borgarinnar, illvirki sem minntu óneitanlega á þegar farið var með lík bandarískra hermanna á svipaðan hátt í borginni árið 1993. Átökin í dag koma í kjölfar sprengjuárása uppreisnarmanna í höfuðborginni í gær en fimm létu lífið í þeim. 1.200 friðargæsluliðar Afríkusambandsins sem eru í Mogadishu virðast fá lítið við ástandið ráðið og vandséð er hvernig hægt verður að halda friðarráðstefnu í borgini í næsta mánuði eins og stefnt er að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×